Uncategorized

Símon Karl Sigurðarson

Símon Karl

Hvar áttu heima og hvað gerir þú?
Ég á heima í Reykjavík og er í námi við menntaskólann við Hamrahlíð og í tónlistarskóla FÍH.

Hvaða ár varstu í lúðrasveitinni og hversu lengi?
Ég var á tímabilinu 2005 til 2010. Martin stjórnaði henni þegar ég byrjaði og síðan tók Hjálmar við. Ég spilaði bara á klarínett í lúðrasveitinni og Haddi var kennarinn minn, svo var ég reyndar kominn aðeins í tíma til Guðna Franzsonar í Reykjavík líka, sem er kennarinn minn enn í dag, en Haddi var svona aðalkennarinn minn heima. Skemmtilegast við lúðrasveitina var að spila lög úr t.d. bíómyndum eða svona soldið erfið stykki og þegar þau voru farin að hljóma virkilega vel, þá var rosalega gaman að spila það og svo auðvitað félagsskapurinn og ferðirnar og svona, það var allt mjög skemmtilegt. Við fórum á lúðrasveitalandsmót á Akranesi og svo Keflavík og svo fórum við til Svíþjóðar líka, ég man ekki eftir því að við höfum farið neitt annað. Það var rosalega gaman það var sérstaklega gaman að fara til Svíþjóðar. Ég spila enn og er í tónlistarnámi í tónlistarskóla FÍH með menntaskólanum.

Hvernig lög spiluðu þið í lúðrasveitinni?
Við spiluðum allt á milli himins og jarðar. Við spiluðum kvikmyndatónlist eins og „Pirates of the Caribbian“ og „Lord of the Rings“ held ég. Svo spiluðum við„Take 5“ og öll afrísku lögin sem Martin útsetti eins og „Madiba Jive“ svo spiluðum við nátttúrulega Sousa marsana og Öxar við ána og öll lögin sem við spiluðum á 17. júní og svona, já allt á milli himins og jarðar eiginlega.

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í lúðrasveit?
Sko, það er náttúrulega rosalega góð æfing að spila með öðrum og svona mörgum og þá æfist maður í því að stilla rétt, hlusta vel á aðra, horfa á nótur og horfa á sjórnanda á sama tíma, það er rosalega mikilvægt að geta horft á stjórnandann. Núna er ég til dæmis í Hamrahlíðarkórunum í Reykjavík og þá hjálpar það mér rosalega mikið að hafa verið í lúðrasveit af því að þá er ég orðinn vanur því að lesa nótur og horfa á stjórnandann og geta alltaf fylgt slaginu.

Ertu í lúðrasveit í dag?
Nei, því miður. Ég er í Hamrahlíðar-kórunum, samspili í FÍH, salsasveit, Húsbandinu í MH og Ribböldunum.

Jóel Bjarki Sigurðarson, Salvör Mist Sigurðardóttir og Dagný Inga Magnúsdóttir tóku viðtalið.

Uncategorized

Kristjón Daðason

Kristjón Daðason

Hvar áttu heima og við hvað starfar þú?
Ég bý í Grafarholti, Reykjavík. Ég kenni og stjórna B-sveit Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar og stjórna einnig B-sveit Skólahljómsveitar Grafarvogs með Einari Jónssyni básúnuleikara.

Hvaða ár varstu í lúðrasveitinni og hversu lengi?
Ég var í Lúðrasveit Stykkishólms frá 7-14 ára aldri eða frá 1992-1999 þangað til við fjölskyldan fluttum út til Danmerkur. Pabbi, Daði Þór Einarsson, stjórnaði þá lúðrasveitinni og kenndi mér á trompet.

Spilar þú á hljóðfæri í dag?
Ég er menntaður trompetleikari og tónlistarkennari.

Hvernig lög spiluðu þið í lúðrasveitinni?
Þau lög sem eru eftirminnilegust eru „When I’m 64“ eftir The Beatles og Alladin syrpa þar sem ég fékk að leika mitt fyrsta sóló á tónleikum í laginu „A Whole New World“.

Hvað fannst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Mér fannst skemmtilegast að spila fyrst og fremst, en auðvitað ferðalögin í Morfellsbæ og svo ferðalagið til Vík í Mýrdal var skemmtilegt.

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í lúðrasveit?
Hjá Lúðrasveit Stykkishólms hófst ferill minn sem trompetleikari. Ég hef aldrei hætt að spila á hljóðfæri síðan ég byrjaði um 4 ára að spila á blokkflautu og síðan seinna meir á harmokíku bæði hjá Hafsteini Sigurðssyni. Ég var aldrei sterkur í grunnskóla í bókum og sveoleiðis hlutum en þarna var ég algörlega á heimavelli og þess vegna valdi ég þá leið að verða tónlistarmaður því tónlist gefur lífinu gildi!

Haukur Páll Kristinsson tók viðtalið.

Viðtöl 2014

Kristbjörg Hermannsdóttir

Kristbjörg Hermannsdóttir

Hvar áttu heima og við hvað starfar þú?
Ég á heima í Stykkishólmi og ég er handavinnukennari.

Varstu í lúðrasveiti?
Já, ætli ég hafi ekki verið í 5-6 ár í Lúðró. Mig minnir að það hafi verið frá 1984-1990 eða þar um bil. Þá stjórnaði Daði Þór Einarsson lúðrasveitinni og kenndi mér á kornett. Við spiluðum blönduð lög í Lúðró. Það voru þekkt lúðrasveitarlög, marsar og svo líka léttari lög. Félagsskapurinn var það sem stendur upp úr í minningunni. Það var rosalega gaman í ferðalögum og ég fór í mörg, bæði innanlands, á landsmót og svo fór ég í tvö ferðalög til útlanda. Fyrra ferðalagið var til Norðurlandanna þar sem við heimsóttum vinabæi en seinna ferðalagið var til Austur- Þýskalands. Lúðrasveitinni var boðið á tónlistarhátíð og var sú ferð ógleymanleg í alla staði.

Ertu í lúðrasveit í dag?
Nei, ég er ekki í lúðrasveit í dag en ég spila á hljóðfæri og nýt tónlistar á hverjum degi.

Dagný Inga Magnúsdóttir, Salvör Mist Sigurðardóttir og Jóel Bjarki Sigurðarson tóku viðtalið.

Uncategorized

Njáll Þórðarson

Njalli

Hvar áttu heima og við hvað starfar þú?
Ég bý í Reykjavík, Seláshverfi í Árbænum og hef starfað hjá Símanum sl. 7 ár
sem vörustjóri. En við fjölskyldan förum mjög mikið í nafla alheimsins, Stykkishólm.

Varstu í lúðrasveitinni?
Var í Lúðrasveit Stykkishólms að mig minnir frá 1986 til 1990, eða u.þ.b. fjögur ár. Daði Þór Einarsson, súper- snillingur var með sveitina þau ár sem ég fékk að vera með. Ég spilaði á túbu, sem er klárlega fallegasta sólóhljóðfæri sem hver einasta lúðrasveit getur státað af. Sem meira er, þá er ég svo stoltur af því að ég er skráður sem Túbuleikari á já.is. Daði Þór kenndi mér á túbu, en svo lærði ég líka á píanó í Tónó, Sigrún Sýslumannsins (sem þá var) og Jóhanna Guðmunds kenndu mér á það hljóðfæri. Einnig var ég í tónfræði hjá Lalla Pé og Hadda heitnum Sig. „Mr Tuba“ var uppáhaldslagið á þessum tíma, en svo voru auðvitað klassísk lúðrasveitaverk sem voru æfði og spiluð og svo fannst mér líka skemmtilegt að freta „Eye of the Tiger”“ í túbuna.

Eftirminnilegt við árin í Lúðró?
Allt. Lúðrasveitarstarf hefur ótrúlega marga kosti, aga, læra listina að vinna í hóp og bera virðingu fyrir öðrum. Ferðalög innan- og utanlands og svo þegar allt kemur til alls, er ótrúlega sterkt tengslanet sem verður til með því að starfa í lúðrasveit, bæði starfstengt og persónulegt. Öll lúðrasveitaferðalögsem ég fór í voru eftirminnileg og hrikalega skemmtileg. Innanlands var farið á Höfn, Mosó og Eyjar sem dæmi, en erlendis stóð uppúr ferðin 1988 til Danmerkur og Rostock, sem þá var hluti af Austur-Þýskalandi. Voru forrréttindi sem maður býr að alla ævi. Lifðum á Coke í dós og Mars sem keypt var í dollarabúðum, héldum til í borg, þar sem ferðamenn voru ekki daglegt brauð og fá að upplifa þessa mögnuðu borg áður en Berlínarmúrinn féll, sem gerðist bara rúmlega ári eftir að við vorum þar. Fyrir krakka, á mótunarárum, er það einfaldlega sannað, hvort sem það eru íþróttir eða tónlist, að þetta byggir upp sjálfstraust, maður lærir að bera virðingu fyrir öðrum og spila samhæfða músík, þar sem maður þarf að treysta á framlag annara, svo útkoman verði heildstæð ofl. ofl. Þannig að hvort sem áhuginn liggur í íþróttum eða tónlist, er allt svona starf gríðarlega mikilvægt. Ætti samt að vera skylda að vera í lúðrasveit finnst mér.

Ertu í lúðrasveit í dag?
Nei, því miður. Stundum vildi ég óska þess að hafa afsökun til að grípa í túbuna. Ég spila aðalega á píanó í dag og hef gert það í ýmsum hljómsveitum frá árinu 1989. Er ennþá að spila með hljómsveitum og tónlistarmönnum, sem er mjög skemmtilegt og meira að segja launað áhugamál. Eitthvað annað en golf og veiði… FACE!

Anna Soffía Lárusdóttir tók viðtalið.

Uncategorized

Jón Torfi Arason

Jón Torfi 4

Hvar býrð þú og við hvað starfar þú?
Ég bý í Stykkishólmi. Á veturna er ég sjómaður á bát héðan úr Hólminum, en á sumrin fer ég á handfæri á mínum eigin bát.

Varstu í lúðrasveitinni?
Mig minnir að ég hafi byrjað á kornett í Lúðró þegar ég var 7 ára, það hefur þá verið ca. árið 1989-90. Á þessum tíma stjórnaði Daði Þór Einarsson sveitinni, en hann kenndi mér síðan á trompet. Ég var í lúðró þangað til ég fór suður í menntaskóla árið 1998. Síðan kom ég aftur í sveitina árið 2005 og spilaði með í um tvö ár, en þá var Martin Markvoll tekinn við prikinu. Fyrstu lögin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um lúðró eru marsarnir. T.d. Sousa marsarnir sem alltaf voru dregnir fram þegar fara átti í skrúðgöngu. Síðan man ég auðvitað eftir Nallanum, sem alltaf var leikinn 1. maí og norska þjóðsönginum sem spilaður var við jólatréð í kvenfélagsgarðinum. Þetta er auðvitað fyrir utan öll jólalögin sem alltaf þurfti að byrja að æfa í september (allavega svona í minningunni). Og svo bara allt hitt.

Eftirminnilegt við árin í Lúðró? 
Skemmtilegast eða eftirminnilegast við lúðró eru öll ferðalögin og æfingabúðirnar. Farnar voru æfinga- og tónleikaferðir í Mosó, Laugargerðisskóla og eitt skiptið fórum við til Kaupmannahafnar að spila í Tívolí. Svo var auðvitað alltaf gaman að spila á tónleikum, þó stundum kæmust nú fleiri að en vildu. Það hafa allir gott af því að vera í lúðrasveit og þetta er eitthvað sem maður býr að alla ævi. Í lúðrasveit lærir maður hvernig samspil hljóðfæra virkar og svo auðvitað það sem er svo mikilvægt í allri tónlist, að hlusta. Svo er félagsskapurinn auðvitað frábær… allavega svona í efra brassinu.

Ertu í lúðrasveit í dag?
Því miður hef ég ekki tíma til að spila í lúðrasveit í dag, en það er nú samt þannig að maður hættir aldrei í lúðró. Allavega ekki í Lúðrasveit Stykkishólms. Í dag þegar ég dreg upp hljóðfæri spila ég oftast á gítar, en trompetið er aldrei langt undan. Ég á nokkuð safn af allskonar hljóðfærum sem ég spila minna á en finnst voða gott að hafa í kringum mig t.d. píanó, básúnu og kontrabassa.

Haukur Páll Kristinsson tók viðtalið.

Tónlist 2014-15

Hausttónleikar 2014

Hér má hlusta á upptökur sem voru gerðar fimmtudaginn 21. nóvember í Stykkishólmskirkju – hausttónleikar lúðrasveitarinnar.

Fram komu Litla Lúðró (LL), Stóra Lúðró (LS) og Víkingasveitin (VS).

Stjórnandi var Martin Markvoll.

 

 

Uncategorized

Hrefna Rós Lárusdóttir

Hrefna Rós - Víkingasveit

Hvenær byrjaðir þú að læra á hljóðfæri og hvaða hljóðfæri hefur þú lært á?
Ég æfði á trompet í fyrsta bekk, æfði síðan á píanó 2001-2006. Byrjaði að læra á básúnu árið 2004 og hætti núna um áramótin í Tónlistarskólanum í Stykkishólmi þar sem ég fór í skóla til Reykjavíkur. Er ennþá að spila. Ég spilaði á básúnu í lúðrasveitinni og Martin var mest að kenna mér. Í fjarveru Martins var Guri í einn vetur (að mig minnir) og Hjálmar í tvo vetur.

Hvað finnst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Það sem mér finnst skemmtilegast við lúðrasveitina er að spila flott, skemmtileg og krefjandi lög, og að vera í góðra vina hópi. Ég fór á lúðrasveitalandsmót í Reykjanesbæ og svo fórum við til Svíþjóðar árið 2010 og það var ekkert smá gaman! Í vetur fórum við líka í helgarferð til Reykjavíkur og það var líka mjög gaman!

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í Lúðrasveit Stykkishólms?
Í gegnum lúðrasveitina hef ég kynnst mikið af skemmtilegu fólki, og lært að spila í hóp. Ég hef einnig lært mjög mikið gagnlegt sem hefur hjálpað mér í öllum þeim samspilum sem ég hef tekið þátt í. Ég var í Lúðrasveit Æskunnar í vetur, en hún hefur lokið störfum. Lúðrasveit Æskunnar hélt tónleika í Hörpu og svo spiluðum við einnig á lokakeppni Nótunnar. Annars er ég ekki í neinni sveit en kem á æfingar þegar ég kem heim og ætla að spila með á afmælistónleikunum.

Þú hefur sigrað Nótuna, hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt?
Ég sigraði í svæðiskeppni Nótunnar á Ísafirði í fyrra, 2013. Eftir það hefur verið haft samband við mig og ég beðin um að spila í allskonar hópum. Tók m.a. þátt í Brassbyltu í Hafnarfirði þar sem fremsti túbuleikari heims kom fram með okkur. Ég hef einnig spilað í Skálholti á tónleikum með mjög efnilegum krökkum, svo spilaði ég núna í vetur með brasshópi úr Ungfóníunni í óperu sem nemendur úr óperudeild söngskóla Sigurðar Demetz settu saman í Iðnó. Að lokum spilaði ég með Ungfóníunni í vetur og það var mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni!

Anna Soffía Lárusdóttir tók viðtalið.

Uncategorized

Haukur Páll Kristinsson

Haukur Páll - Stóra Lúðró

Hvar áttu heima og í hvaða bekk ertu?
Ég bý í Stykkishólmi og er í níunda bekk.

Hvenær byrjaðir þú í Lúðrasveit Stykkishólms?
Ég byrjaði í lúðró 8 ára og er ennþá.

Á hvaða hljóðfæri spilar þú og hver er kennarinn þinn í tónó?
Ég spila á trompet. Martin Markvoll hefur kennt mér frá byrjun en síðan var Hjálmar í 2 vetur.

Spilar þú á hljóðfæri í dag?
Já, trompet og glamra stundum á gítar heima.

Hvernig lög spilið þið í lúðrasveitinni? 
Allskonar lög.

Hvað finnst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Að spila.

Hefurðu farið í ferðalög með lúðrasveitinni? Hvert?
Við fórum einu sinni í tónleikaferðalag um Vesturland og fórum líka til Gautaborgar og kepptum á Nótunni í Borganesi.

Var gaman?
Já.

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í lúðrasveit?
Mjög góð áhrif.

Uncategorized

Amelía Dís Einarsdóttir

Amelía Dís - Litla Lúðró

Hvar áttu heima og í hvaða bekk ertu?
Ég á heima í Stykkishólmi og er í fjórða bekk.

Hvenær byrjaðir þú í Lúðrasveit Stykkishólms?
Þetta er fyrsta árið mitt.

Á hvaða hljóðfæri spilar þú og hver er kennarinn þinn í tónó?
Ég spila á píanó. László er kennarinn minn.

Hvernig lög spilið þið í lúðrasveitinni?
Skemmtileg lög.

Hvað finnst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Þegar við spilum.

Hefurðu farið í ferðalög eða æfingabúðir með lúðrasveitinni?   Hvert? Var gaman?
Uuu, já – ég var það seinustu helgi.

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í lúðrasveit?
Góð áhrif.

Vaka Þorsteinsdóttir tók viðtalið.