Uncategorized

Sólbjört S. Gestsdóttir

Sólbjört S. Gestsdóttir

Hvar áttu heima og við hvað starfar þú?
Ég á heima á Austurgötunni í Stykkishólmi og starfa sem deildarstjóri í leikskólanum í Stykkishólmi en er á leið í fæðingarorlof.

Hvaða ár varstu í lúðrasveitinni og hversu lengi?
Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár ég var í lúðrasveitinni en minnir að það hafi verið frá árinu 1989 til 1994 og svo aftur 2003 – 2006.
Fyrst þegar ég var í lúðrasveitinni var Daði Þór stjórnandi og svo var Martin stjórnandi. Ég spilaði á klarinett öll þessi ár.

Hver var kennarinn þinn í tónó?
Ég lærði hjá Hadda Sig öll þessi ár sem ég var í tónlistaskólanum og fannst hann algjör snillingur á sínu sviði.

Spilar þú á hljóðfæri í dag?
Já, ég leik mér aðeins við að spila á blokkflautu með dóttur minni, á ukulele sem mér finnst skemmtilegt að leika mér á, hljómborð sem ég leik mér stundum við að spila á. Einnig spila ég enn á klarinettið þegar ég dett í þannig stuð.

Hvernig lög spiluðu þið í lúðrasveitinni?
Við spiluðum allskonar lög en uppáhaldslagið var Tequila. Einnig spiluðum við mikið gömul íslensk lög og þjóðþekkta slagara í bland við lög sem enginn þekkti áður en byrjað var að æfa lagið.

Hvað fannst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Það skemmtilegasta við lúðrasveitina var félagsskapurinn enda ekki maður með mönnum nema að vera í lúðrasveit og svo var alltaf gaman þegar verið var að spila skemmtileg lög.

Fórstu í ferðalög með lúðrasveitinni? Hvert? Var gaman?
Ég fór í Mosfellsbæ í æfingabúðir annaðhvort ár og svo fórum við einu sinni í Laugagerði í æfingabúðir og það var alltaf gaman. Í Mosfellsbænum hittum við krakkana í lúðrasveitinni þeirra og fengum að fara heim með þeim í mat og svo var sameiginlegt ball og svo var samspil lúðrasveitanna á æfingum. Þau í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar komu svo árin sem við fórum ekki til þeirra.

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í Lúðrasveit Stykkishólms?
Þetta hefur þau áhrif að maður hugsar til baka með þakklæti í huga fyrir þennan frábæra tíma og þann frábæra félagsskap sem maður hafði í lúðró. Einnig hjálpaði þetta við að læra á hljóðfærið sem maður var að æfa sig á.

Ertu í lúðrasveit í dag?
Nei, ég er ekki í lúðrasveit í dag enda hafa önnur verkefni tekið við.

Ægir B. Jóhannsson

Lúðrasveit Stykkshólms 70 ára

Árið 1944, á vordögum íslenska lýðveldisins, komu nokkrir ungir menn saman í Stykkshólmi í þeim tilgangi að stofna með sér lúðrasveit. Upphafsmenn og helstu hvatamenn að stofnun lúðrasveitarinnar voru þeir Víkingur Jóhannsson og Árni Helgason, en þeir höfðu báðir flutt til Stykkishólms frá Eskifirði árið 1942. Á Eskifirði var þá starfandi lúðrasveit og höfðu þeir Árni og Víkingur báðir verið liðsmenn í henni. Þeir félagarnir voru af mörgum hvattir áfram til verksins, ekki hvað síst af eldri mönnum í Hólminum, sem höfðu verið meðlimir í hornaflokki sem starfræktur var þar skamma hríð á öðrum og þriðja áratug aldarinnar, og söknuðu þess að hafa ekki lengur lúðrasveit á staðnum. Var nú tekið til við undirbúning. Hóað var saman áhugasömum einstaklingum og einnig voru hinir gömlu lúðrar Lúðrafélagsins leitaðir uppi og þeir fengnir í hendur hagleiksmönnum í bænum til viðhalds og viðgerða, en gamla lúðrafélagið hafði átt í sínum fórum sjö horn og tvær trommur þegar best lét.

Stóra stundin rann upp þann 20. apríl 1944, á sumardaginn fyrsta. Þann dag var Lúðrasveit Stykkishólms stofnuð með formlegum hætti. Boðaður hafði verið fundur í kaffistofu Kaupfélagsins kl. 10:30 um morguninn og þangað stefnt þeim mönnum sem sýnt höfðu áhuga á þátttöku í stofnun lúðrasveitar. Þetta voru þeir Árni Helgason, sýsluskrifari, Víkingur Jóhannsson, verslunarmaður, Ólafur Einarsson, afgreiðslumaður, Ágúst Bjartmars iðnsveinn, Rögnvaldur Ólafsson , iðnsveinn, Þorleifur Jóhannsson, skósmiður, Ragnar Þorleifsson, iðnnemi, Hinrik Finnson, verslunarmaður og Skúli Bjarnason, verslunarmaður. Auk þessara manna, er mættu á fundinn, teljast einnig til stofnfélaga þeir Benedikt Lárusson, verslunarmaður og Lárus Rögnvaldsson, rafvirki, sem voru fjarstaddir.

Á stofnfundinum var Víkingur Jóhannsson kjörinn formaður Lúðrasveitar Stykkishólms, Árni Helgason, ritari og Benedikt Lárusson, gjaldkeri.

Einnig var á fundinum ákveðið efna til söfnunar meðal bæjarbúa, og afla með þeim hætti fjár til hljóðfærakaupa. Var gengið í hús með söfnunarlista og aflaðist allvel af fé. Sextíu manns lögðu fé til söfnunarinnar, ásamt því að 27 manns gerðust styrktaraðilar með árlegu framlagi. Til stóð að nota söfnunarféð, sem var rétt tæpar 3000 krónur, til þess að kaupa nýja lúðra frá Ameríku, og var aflað til þess nauðsynlegra innflutningsleyfa. Þá spurðist að Ungmennafélagið í Borgarnesi vildi selja lúðra þá er Lúðrasveitin Þrestir í Borgarnesi hafði átt, en sú lúðrasveit hafði þá hætt störfum. Fór svo að Lúðrasveit Stykkishólms festi kaup á þessum lúðrum sem voru 12 að tölu og greiddi fyrir þá 2700 kr. Þessir tólf lúðrar auk þeirra sex lúðra, sem nothæfir voru af gamla lúðrasettinu, voru framan af uppistaðan í hljóðfærakosti Lúðrasveitarinnar.

Fljótlega eftir að “Borgarneslúðrarnir” komu í Hólminn í byrjun september 1944 var tekið til við æfingar. Æfingaaðstaða var í kaffistofum frystihúsanna, bæði hjá Sigurði Ágústssyni og Kaupfélaginu. Flestir lúðrasveitarfélaganna voru ungir menn, tæplega fermdir og fram yfir tvítugt, en þó skartaði hópurinn samt einum af gömlu lúðrafélagsmönnunum, Þorleifi Jóhannsyni, skósmið, sem lék á cornet. Það er því einsýnt að flestir hinna ungu manna hafa þurft að læra á hljóðfærin frá grunni áður en um samæfingar og samspil var að ræða. Kom það að mestu leyti í hlut Víkings Jóhannssonar að kenna á hljóðfærin. Þótti með ólíkindum, og þykir enn, hversu fljótt og vel honum tókst að kenna mönnum á hornin þannig að þeir gætu farið að æfa samspil. Á æfingu þann 24. september er fært til bókar að nafngreindur sjö mann hópur geti spilað saman Blessuð sértu sveitin mín, “svona eftir atvikum”

Þann 1. desember árið 1944 lék Lúðrasveit Stykkishólms í fyrsta skipti opinberlega á skemmtun hjá Kvenfélaginu Hringnum sem fram fór í samkomuhúsinu. Þar komu fram sjö lúðrablásarar og léku þeir fimm laga prógram við góðar undirtektir. Á þessum fyrstu opinberu tónleikum skipuðu Lúðrasveit Stykkishólms eftirtaldir menn “talið frá 1.cornet”: Benedikt Lárusson, Þorleifur Jóhannsson, Árni Helgason, Hinrik Finnsson, Pétur Jónsson, Víkingur Jóhannsson , Skúli Bjarnason, Bjarni Lárentsínusson og Rögnvaldur Ólafsson.

Auk þess að sjá um kennslu og æfingar útsetti Víkingur mörg þeirra laga sem leikin voru á upphafsárum lúðrasveitarinnar. Þá var Víkingur iðinn við að útvega lúðrasveitinni nótur til afritunar, bæði austan frá Eskifirði og einnig kom hann sér upp samböndum við stóru lúðrasveitirnar á höfuðborgarsvæðinu, Svaninn, Lúðrasveit Reykjavíkur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar. Voru forsvarsmenn þessara lúðrasveita Hólmurum mjög innan handar við útvegun á nótum og útsetningum. Eins komu stjórnendur þessara sveita  vestur í Hólm til að æfa og kenna meðlimum lúðrasveitarinnar hér. Að öðrum ólöstuðum skal þar fremstan telja Albert Klahn, en hann kom ár eftir ár á vorin um hvítasunnuna, bæði einn en stundum með hljómsveit sína með sér til tónleikahalds.

Árið 1945 var Lúðrasveit Stykkishólms komin á fulla ferð og var kölluð til við öll helstu tækifæri. Þann 1. maí var spilað fyrir utan Sjávarborg. Í tilefni af friðardeginum í Evrópu hélt Stykkishólmshreppur hátíð þann 8. maí og þá var í nógu var að snúast hjá lúðrasveitinni. Byrjað var að spila uppi við skólann og þaðan fór lúðrasveitin fyrir skrúðgöngu niður í kirkju. Seinna um daginn var spilað á svölum St. Fransciskusspítalans, og um kvöldið var ball í samkomuhúsinu. Þar spilaði lúðrasveitin líka. Svo kom sjómannadagurinn og þá var spilað, farið að Fáskrúðabakka og spilað á skemmtun hjá kvenfélaginu þar í sveit. Þann 17. júni var ausandi rigning og því ekki hægt að spila úti eins og til stóð, en bætt úr því um kvöldið í samkomuhúsinu. Síðan tók við 25 ára afmælishátíð Kaupfélags Stykkishólms að Skildi í Helgafellsveit, Ungmennafélagsmót, einnig að Skildi, og skemmtun að Dröngum á Skógarströnd. Þá var lúðrasveitin fengin til að spila við móttöku fyrir forseta Íslands að Vegamótum. Síðast var klykkt út með því að spila á áramótaballi. Það má af þessu ljóst vera hvílíkur fengur fyrir menningarlífið í Stykkishólmi og nærsveitunum Lúðrasveit Stykkishólms hefur verið alveg frá upphafi.

Það var ekki einvörðungu með lúðrablæstri á tyllidögum sem lúðrasveitin og félagar hennar höfðu áhrif í menningarlífinu. Lúðrasveitarforkólfarnir Víkingur Jóhannson og Benedikt Lárusson, höfðu leikið saman fyrir dansi á harmonikkur, en fljótlega eftir að lúðrasveitarmenn fóru að verða færir í flestan sjó, stækkuðu þeir við sig og og stofnuðu Danshljómsveit Stykkishólms árið 1946. Þessi hljómsveit hélt uppi fjörinu í 8 ár og þegar hennar naut ekki lengur við var stofnuð önnur danshljómsveit B.L kvartett, sem einnig var skipuð lúðrasveitarmönnum. Síðan koma hljómsveitirnar hver af annarri, Egon kvintett, Stjörnukvintett, Dalbræður og Júnó, alltaf mannaðar að stórum hluta með mönnum sem höfðu sinn tónlistarlega bakgrunn úr lúðrasveitinni.

Árið 1952 var Árni Helgason kjörinn formaður lúðrasveitarinnar og með honum í stjórn sátu þeir, Benedikt Lárusson, gjaldkeri, Bjarni Lárusson, meðstjórnandi og Ágúst Bjartmars, endurskoðandi.

Lúðrasveit Stykkishólms var lítt í langferðum fyrsta áratuginn. Hitt var algengar á þeim tíma að lúðrasveitir af höfuðborgarsvæðinu kæmu í heimsókn í Hólminn og æfðu og spiluðu með heimamönnum. Lúðrasveit Reykjavíkur, Svanurinn og Lúðrasveit Hafnarfjarðar komu allar á þessum tíma í Hólminn í þessum erindagerðum og sumar oftar en einu sinni. Í maí 1953 hleypti lúðrasveitin þó heimdraganum, settist upp í P-101 og hélt til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar að heimsækja lúðrasveitir þar. Í þessari för spilaði Lúðrasveit Stykkishólms m.a. á Austurvelli og var þeim hljómleikum útvarpað að hluta. Árið 1954 tók Lúðrasveit Stykkishólms þátt í stofnun Sambands íslenskra lúðrasveita, og fór í framhaldi af því á fyrstu landsmót S.Í.L., í Reykjavík árið 1955 og á Akureyri 1957, auk fleiri ferða.

Í tæpa tvo áratugi var aðalæfingahúsnæði lúðrasveitarinnar í kaffistofum frystihúsanna, auk þess sem æft var í gamla íþróttahúsinu. Af þessu hefur verið mikið óhagræði með tilheyrandi hljóðfæraflutningum og frágangi og voru jafnan kjörnir tveir húsverðir til að sjá um það húsnæði sem sveitin hafði aðgang að hverju sinni. Árið 1957 eignaðist lúðrasveitin eigið húsnæði. Þá stóð fyrir dyrum að reisa nýtt bókasafnshús á Þinghúshöfðanum og fékk lúðrasveitin gamla bókasafnshúsið til eignar, gegn því að fjarlægja það af lóðinni. Var húsið síðan flutt á lóð við Silfurgötu og komið þar fyrir á steyptum grunni, bæði stækkað og með nýmóðins útliti eftir þeirra tíma mælikvarða. Var hús þetta, sem gengur undir nafninu Hljómskálinn, flutt og byggt upp að hluta í sjálfboðavinnu af meðlimum lúðrasveitarinnar. Fjármagn til efniskaupa var af skornum skammti og tók bygging hússins því um tvö og hálft ár. Fyrsta lúðrasveitaræfingin í hinu nýja húsi var haldin þann 19. apríl 1960. Var Hljómskálinn upp frá því, og um mörg ókomin ár, aðalæfingahúsnæði Lúðrasveitar Stykkishólms. Húsbyggingunni var þó ekki að fullu lokið fyrr en 1963-64.

Um og eftir 1960 fluttu margir í burtu úr Stykkishólmi og nærsveitum og voru félagar úr lúðrasveitinni þar á meðal. Var á þeim tíma mikil deyfð yfir starfsemi lúðrasveitarinnar og óttuðust menn jafnvel um tíma að hún legði upp laupana. Við þessu sáu forkólfar lúðrasveitarinnar helst þá lausn að koma upp skipulagðri tónlistarkennslu í Stykkishólmi og tryggja þannig nægt framboð af lúðrablásurum fyrir sveitina. Þessu máli hafði fyrst verið hreyft á aðalfundi lúðrasveitarinnar árið 1957. Var þá rædd sú hugmynd “að koma á fót vissum kennslutímum í lúðrablæstri við skólann í samstarfi við skólastjóra og kennara” Aftur er þessu máli hreyft í október 1960, en þá hafði Víkingur Jóhannson aflað nokkurra upplýsinga um hvað þyrfti til að koma upp “vísi að tónskóla” í Hólminum. Vorið 1963 voru samþykkt lög frá Alþingi um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Gert var ráð fyrir því í lögum þessum að tónlistarskólarnir væru reknir af tónlistarfélögum og fjármagnaðir til jafns af ríkinu, viðkomandi sveitarfélagi og tónlistarfélagi staðarins. Sáu nú lúðrasveitarmenn sér leik á borði og gengust fyrir því að stofnað var tónlistarfélag í Stykkishólmi með það að meginmarkmiði að koma á fót tónlistarskóla í bænum. Tónlistarfélag Stykkishólms var stofnað þann 9. apríl 1964 og voru stofnfélagar 53 að tölu. Tónlistarskólinn tók til starfa í október sama ár. Skólastjóri, og eini kennarinn fyrst um sinn, var Víkingur Jóhannsson, og voru nemendur “yfir 40 í píanóleik og á blásturshljóðfæri.”

Eftir að tónlistarskólinn tók til starfa var þess ekki langt að bíða “að Eyjólfur færi að hressast”. Árið 1966 er haldinn aðalfundur í lúðrasveitinni, en þeir höfðu fallið niður síðustu 3 ár þar á undan. Einnig var þetta sama ár ráðist í að endurnýja stóran hluta af hljóðfærakosti lúðrasveitarinnar og voru nýir lúðrar teknir í notkun um haustið. Farið var á landsmót S.Í.L. á Selfossi þá um sumarið, en ekki hafði verið farið á síðust tvö landsmótin, í Vestmannaeyjum 1960 og á Ísafirði 1963. Hljómleikaferð var farin um Snæfellsnes og spilað í Grundarfirði, í Ólafsvík og á Hellissandi. Með í þessari för var einnig skólalúðrasveit eða “lúðrasveit drengja” eins og hún var kölluð upp á þeirra tíma sið. Haustið 1966 innrituðust 36 nemendur í tónlistarskólann. Af þeim hópi voru 17 að læra á blásturshljóðfæri og þess ekki langt að bíða að skólinn skartaði fullbúinni lúðrasveit og færi að skila af sér fyrstu nýju meðlimunum í “stóru lúðró”.

Tónlistarskólinn tryggði einnig stöðugt framboð á danshljómsveitum í Stykkishólmi, og þó að lítið færi fyrir “brassi” í popphljómsveitum þessa tímaskeiðs, þá voru “poppararnir” undantekningarlítið einnig fullgildir meðlimir í lúðrasveitinni. Einnig hefur lúðrasveitar- og tónlistarskólafólk oft verið leikfélagsfólkií leikfélaginu Grímni sem stofnað var árið 1967, innan handar þegar þurft hefur lifandi tónlist við uppsetningar á leikverkum.

Á 25 ára afmæli Lúðrasveitar Stykkishólms, á sumardaginn fyrsta 1969, var svo slæmt veður að ekki var spilandi úti, en lúðrasveit drengja lék innandyra í skólanum. Þann 17. maí var haldið mikið afmælishóf í samkomuhúsinu, þar sem bæði Lúðrasveit Stykkishólms og Lúðrasveit drengja léku, ásamt  heiðursgestinum sem var Sæbjörn Jónsson. Í afmælishófi þessu var leikið lag eftir einn af stofnfélögum lúðrasveitarinnar, Hinrik Finnson, í útsetningu Víkings Jóhannssonar. Í tilefni af afmælinu var farið til Reykjavíkur og tekin upp 30 mínútna dagskrá til flutnings í Ríkisútvarpinu. Fór upptakan fram í Háskólabíói sem þá var einn helsti tónleikasalur landsins.

Þriðja stjórn lúðrasveitar Stykkishólms var kosin árið 1970. Hana skipuðu þeir Hannes Gunnarsson, formaður, Gunnlaugur Lárusson, gjaldkeri og Björgvin Kr. Þorvarðarson, ritari.

Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní 1971, vígði Lúðrasveit Stykkishólms sína fyrstu búninga. Búningar þessir voru teiknaðir af Colin Porter. Búningurinn var appelsínugulur jakki með hvítu belti og hvítum axlaskúf á vinstri öxl. Buxurnar voru svartar með appelsínugulri rönd. Þá var með búningnum appelsínugul glansdershúfa með hvítu deri og svörtum borða. Þeir eru til sem halda því fram að þetta hafi verið fallegasti lúðrasveitabúningur á landinu fyrr og síðar. Fram til þessa tíma hafði lúðrasveitin eingöngu skartað glansdershúfum, yfir jakkaföt og lakkrísbindi. Fyrst húfum með hvítum kolli, ekki ósvipuðum ofvöxnum stúdentshúfum. Síðar sportaði sveitin svörtum kaskeitum með bláum kolli og breiðum bláum borða allan hringinn.

Lúðrasveitin starfaði af fullumkrafti á þessum tíma. Auk spilamennsku við öll hefðbundin tækifæri innanbæjar, fór sveitin bæði á landsmótið í Keflavík ári 1971 og eins á landsmót á Húsavík árið 1975. Árið 1972 tók lúðrasveitin þátt í Húsafellshátíðinni, en á hátíðinni það ár var hjómsveitin Óvera úr Stykkishólmi kjörin efnilegasta unglingahljómsveit landsins. Var það enn eitt dæmið um þá sterku tónlistarhefð sem lúðrasveitin og Tónlistarskólinn höfðu skapað í Hólminum.

Vorið 1977 lét Víkingur Jóhannsson af störfum sem skólastjóri Tónlistarskólans og einnig sem stjórnandi Lúðrasveitar Stykkishólms. Víkingur hafði oftast verið eini kennari tónlistarskólans allt til ársins 1975, og haldið á tónsprota lúðrasveitarinnar samfellt í 33 ár. Í  stað Víkings kom sem skólastjóri við Tónlistarskólann norskur tónlistarkennari, Arne Björhei, og stjórnaði hann einnig lúðrasveitinni fram til 1980 er hann hélt aftur utan. Í tíð Arne Björhei urðu nokkrar breytingar á efnisskrá lúðrasveitarinnar. Löngum höfðu íslensk ættjarðarlög og marsar verið alsráðandi en nú komu einnig til sögunnar lúðrasveitaútsetningar á mun léttari tónlist.

Sumarið 1979 var 9. landsmót Sambands íslenskra lúðrasveita haldið í Stykkishólmi og voru á mótið saman komnar 8 lúðrasveitir, 270 manns víðsvegar að af landinu. Aðaldagskrá mótsins fór fram á knattspyrnuvellinum í Jaðarsmýri og var reistur þar hljómsveitapallur með annari langhlið vallarins.  Hljómsveitapallurinn rúmaði tvær lúðrasveitir í einu, þannig að á meðan ein lúðrasveitin spilaði, gat sú næsta verið að koma sér fyrir.  Það nýmæli var á þessu landsmóti, að þar marseruðu lúðrasveitirnar spilandi, hver frá sínum stað í bænum og komu sín úr hvorri áttinni, hver á hæla annarri inn á mótssvæðið. Höfðu lúðrasveitarmenn í Hólminum fyrir mótið, mælt upp mismunandi vegalengdir og tímamælt þær nákvæmlega. Ábyrgir ungir menn með labbrabb tæki stjórnuðu síðan umferð lúðrasveitanna inn á mótssvæðið af mikilli nákvæmni. Þannig stóð á að S.Í.L. átti 25 ára afmæli á meðan á mótinu stóð og var því á aðalfundi S.Í.L., sem haldinn var mótsdagana, ákveðið að ráðast í að rita sögu lúðrasveitanna á Íslandi frá upphafi. Afraksturinn af þeirri ákvörðun birtist síðan árið 1984 í formi bókarinnar “Skært lúðrar hljóma Saga lúðrasveitanna á Íslandi”. Sú lúðrasveit sem vakti hvað mesta athygli á landsmótinu var norsk skólalúðrasveit, Oppegaard skolemusikkorps. Skólalúðrasveit þessari hafði verið boðið sérstaklega til mótsins af Lúðrasveit Stykkishólms, en stjórnandi hinnar norsku sveitar var Erik Björhei, bróðir lúðrasveitarstjórnandans í Hólminum. Í framhaldinu af landsmótinu bauð Oppegaard skolemusikkorps gestgjöfum sínum í heimsókn til Noregs og fór Lúðrasveit Stykkishólms með 72 manna hóp utan sumarið 1980 í þriggjadaga ferð. Í ferðinni var leikið opinberlega í Oppegaard, í Dröbak og í Drammen, sem er vinabær Stykkishólms. Var þetta fyrsta utanlandsferð Lúðrasveitar Stykkishólms, en ekki sú síðasta.

Fjórða stjórnin var kosin 1981, og var hún svo skipuð.  Eyþór Lárentsínusson, formaður, Ásdís Ásmundsdóttir, gjaldkeri og Ólafur Geir Þorvarðarson, ritari.

Eftir að Arne Björhei hvarf á brott úr Stykkishólmi vorið 1980, var tónlistarskólinn skólastjóralaus um eins árs skeið. Á þeim tima féll það í hlut Hafsteins Sigurðsonar að stjórna lúðrasveitinni við opinber tækifæri, en Hafsteinn hafði starfað sem kennari við tónlistarskólann síðan 1975. Um áramótin 1980-1981 kom Daði þór Einarsson til starfa við tónlistarskólann og lúðrasveitina og réðist í framhaldinu sem skólastjóri tónlistarskólans þá um vorið. Daði Þór Einarsson hóf þá starfsferil sem spannaði 19 ár en hann lét af störfum við skólann árið 2000. Á þessum árum var mikil gróska í lúðrasveitinni og urðu ferðir bæði innan lands og utan næsta árvissar á þessum tíma. Farið var m.a á landsmót S.Í.S.L. í Mosfellssveit 1981, landsmót S.Í.L. í Hafnarfirði 1982 og landsmót S.Í.S.L. í Vestmannaeyjum 1983. Haldið var í ferðalag um Vestfirði 1984 og í vinabæjaheimsókn til Norðurlandanna árið 1986. Farið var til Drammen í Noregi, Örebro í Svíþjóð og Kolding í Danmörku. Farið var á landsmót S.Í.S.L. á Akranesi 1988 og á alþjóðlegt lúðrasveitamót í Rostock í Austur-Þýskalandi 1988. Árið 1989 þegar lúðrasveitin hélt upp á 45 ára afmæli sitt var gefið út veglegt afmælisrit og haldnir afmælistónleikar á sumardaginn fyrsta. Þá var einnig haldið í ferðalög og farið á landsmót S.Í.S.L. á Seltjarnarnesi og landsmót S.Í.L. í Vestmannaeyjum. Sérstök tengsl mynduðust á þessum tíma við skólahljómsveit Mosfellsbæjar og skiptust hljómsveitirnar á að heimsækja hver aðra í hartnær tvo áratugi.

Lúðrasveitin hafði jafnan deilt húsnæði með tónlistarskólanum sem hafði fram yfir 1980 verið til húsa á allt að fjórum stöðum í bænum samtímis. Upp úr 1980 fékk tónlistarskólinn inni í svokölluðum “Kálfi” sem voru lausar kennslustofur við gamla skólann. Eftir að nýi grunnskólinn og íþróttahúsið við Borgarbraut voru komin í gagnið fluttist tónlistarskólinn, og lúðrasveitin með, í nokkrum áföngum inn í gamla barnaskólann.

Árið 1994, á 50 ára afmæli Lúðrasveitar Stykkishólms, var landsmót lúðrasveita aftur haldið í Stykkishólmi, ásamt aðalfundi Sambands íslenskra lúðrasveita. Komu á það mót 11 lúðrasveitir, samtals um 300 manns. Árið 1995 tók lúðrasveitin þátt í fjölskyldutónleikum Lúðrasveitar Reykjavíkur í ráðhúsi Reykjavíkur.

Þegar líða tók á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar, tók að halla undan fæti fyrir lúðrasveitinni og lágu að baki því ýmsar ástæður. Á þessu tíma hafði sú breyting orðið á að æ stærri hluti þeirra nemenda sem lokið höfðu grunnskólaprófi fór að heiman til að mennta sig áfram annars staðar og hurfu því á brott úr bænum með sínar flautur og lúðra. Á sama tíma minnkaði nokkuð ásókn í málmblástursdeildina meðal nýnemenda við tónlistarskólann. Þegar skólastjórinn, Daði Þór, fór í ársleyfi 1998, kom í ljós að erfitt var að fá kennara til að kenna á málmblásturshljóðfæri og stjórna lúðrasveitinni á meðan. Um veturinn stjórnaði Birkir Freyr Matthíasson lúðrasveitinni, en hann kom vestur í Hólm einu sinni í viku til þess  og að kenna á málmblásturshljóðfæri. Að samanlögðu hafði þetta þau áhrif að nú tóku við ” sjö mögur ár” hjá lúðrasveitinni. Lúðrasveit Stykkishólms hafði þegar þarna var komið sögu verið rekin á skólahljómsveitar forsendum um nokkurt skeið. Hafði framlag hinna eldri meðlima því verið afþakkað og kom það sér afar illa þegar harðnaði á dalnum að eiga þá ekki vísa til að fylla í þau skörð sem mynduðust í hljóðfærahópinn. Þrír hinna eldri félaga gengu þó strax til liðs við sveitina eftir áramótin 1999 og þá um vorið birtist í bæjarblaðinu áskorun frá rit stjóranum þess efnis að “allir þeir sem geti komið hljóði úr túbu, baritón, trompet, horni og básúnu, séu hvattir til að mæta á næstu æfingu lúðrasveitarinnar”. Á sama tíma fór tónlistarskólinn að ýta markvisst undir nám á málmblásturhljóðfæri, því að “ekki förum við að vera lúðrasveitarlaus á sjómannadaginn og 17. júní, annað árið í röð”. Tók nú við tímabil uppbyggingar og bata og fór svo að á sextugsafmæli hljómsveitarinnar 2004 hafði Lúðrasveit  Stykkishólms náð aftur sínum fyrri styrk undir markvissri stjórn málmblásturskennara tónlistarskólans og með dyggum stuðningi af hópi hinna eldri félaga. Tilkoma Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði þetta sama ár 2004 hafði einnig mjög jákvæð áhrif á starf Lúðrasveitarinnar þar sem nemendur í Stykkishólmi eru nú margir búsettir lengur í heimabyggð og geta haldið áfram sínu tónlistarnámi þar og starfað með lúðrasveitinni þann tíma.

Eftir að Daði Þór Einarsson hætti með Lúðrasveit Stykkishólms árið 2000, urðu nokkuð ör skipti á málmblásturskennurum og lúðrasveitarstjórnendum næstu árin. Það kom þó ekki mikið að sök þar sem sömu kennararnir voru að koma aftur og aftur. Pawel Dziewonski  frá Póllandi stýrði lúðrasveitinni 2000 – 2002. Guri Hilstad Ólason frá Noregi, var hér 2002-2003 en í hennar tíð óx mjög áhugi nemenda málmblæstri. Veturinn 2003-2004 kemur annar Norðmaður til að leysa Guri af. Sá er Martin Markvoll, en hann hafði verið nemandi Arne Björhei í Tromsö og var hingað komin fyrir hans áeggjan. Guri Hilstad Ólason er hér aftur 2004-2005. Þegar hún hverfur úr starfinu, kemur Martin Markvoll aftur og hefur verið síðan, utan það að hann var í leyfi frá störfum 2009-2011 og stýrði Hjálmar Sigurbjörnsson Lúðrasveitinni á meðan ásamt því að kenna á málmblásturshljóðfæri.

Hin síðustu ár hefur Lúðrasveit Stykkishólms starfað með deildaskiptu fyrir komulagi. Fyrst er að telja “Litlu lúðró”, sem er byrjendasveit fyrir þá nemendur tónlistarskólans sem skemmst eru á veg komnir. Þá er það “Stóra lúðró”, hin eiginlega Lúðrasveit Stykkishólms, en í henni eru þeir nemendur tónlistarskólans sem hafa náð næginlegri leikni til að spila við flestar aðstæður. “Stóra lúðró” er opin öllum þeim sem vilja og geta spilað á lúðra og flautur í Stykkishólmi. Í “Stóru lúðró“ eru ekki eingöngu hefðbundin lúðrasveitarhljóðfæri heldur einnig píanó, rafmagnsgítar og -bassi.  “Víkingasveitin”, sem kennd er við Víking Jóhannsson, tók til starfa árið 2007, en í henni eru lengst komnu nemendur tónlistarskólans. Meðlimir “Víkingasveitarinnar” hafa að auki, margir, hverjir æft og spilað með Stórsveit Snæfellsness í tengslum við skólavist sína í F.S.N. Þá er ótalin trommusveitin (Drumline) sem stofnað var til á svipuðum tíma. Trommusveitin hefur víða gert garðinn frægan, m.a. á svæðistónleikum Nótunnar á Akranesi 2012 og á lokatónleikum Nótunnar í Tónlistarhúsinu Hörpu sama ár, en á hvorum tveggja þessara tónleika hlaut trommusveitin sérstök verðlaun. Í framhaldinu fór trommusveitin í sjónvarpsupptöku með öðrum verðlaunahöfum af lokahátíð Nótunnar 2012.

Árið 2005 var stofnað foreldrafélag við lúðrasveitina ásamt sérstökum búningasjóð til endurnýjunar á búningum lúðrasveitarinnar. Lúðrasveitin hefur undnfarin ár spilað við öll hefðbundin tækifæri,s.s. á 1. maí, á sjómannadag og 17. júní,  á Dönskum dögum og við jólatréð í Hólmgarði. Þá hefur sveitin haldið reglubundna tónleika vor og haust í Stykkishólmskirkju ásamt því að spila við ýmis uppá fallandi tækifæri þegar eftir því hefur verið leitað. Lúðarsveitin hefur einnig tekið þátt í ýmsum samæfingum og verið á faraldsfæti. Farið hefur verið á landsmót S.Í.S.L. á Höfn í Hornafirði, í Reykjanesbæ, í Vestmannaeyjum og á Akureyri. Þá fór Lúðrasveitin utan og tók þátt í Göteborgs Music Festival sumarið 2010.

Aðalaðsetur Lúðrasveitar Stykkishólms er nú í tónleikasal Tónlistarskóla Stykkishólms. Þar var áður íþróttasalur við gamla barnaskólann í Stykkishólmi sem hýsir nú Tónlistarskóla Stykkishólms.

Félagar í lúðrasveitinni eru í dag samtals 50 í öllum deildum.

Stjórnandi lúðrasveitarinnar árið 2014 var Martin Markvoll.

 

Ægir Breiðfjörð Jóhannsson skrifaði.

Landsmót 2014

Landsmót 2014

Hér má hlusta á upptökur frá landsmót SÍSL í Stykkishólmi sunnudaginn 6. apríl 2014.

 

 

Spurt & Svarað

Hvaða hljóðfæri er þetta?

Mynd: Ægir B. Jóhannsson

 

Dawid Einar Karlsson

Dawid Einar Karlsson
Saxabassi

 

Sigurður Maciji Steindórsson Hjaltalín
Skrýtinn kontrabassi

 

Páll Margeir Sveinsson

Kontrafónn

 

Sigurborg Leifsdóttir

Kontrasaxi

 

Lára Guðmundsdóttir

Gleðistrengir

 

Ingibjörg Benediktsdóttir

Kontralúður

 

María Björnsdóttir

Saxaló

 

Unnur Lára Ásgeirsdóttir

Saxell

 


Baldur Þorleifsson
Kontrablásari

 

Ingi Þór Steinþórsson

Sellósaxi

 

Gunnar Svanlaugsson

Kontralúður

Rétt svar má finna hér.

Uncategorized

Dagný Inga Magnússdóttir

Dagný Inga Magnússdóttir

Hvar áttu heima og í hvaða bekk ertu?
Ég á heima í Stykkishólmi og ég er í 4. bekk.

Hvað ertu búin að vera lengi í lúðrasveitinni?
2 ár

Hver stjórnaði lúðrasveitinni þegar þú byrjaðir?
Martin

Á hvaða hljóðfæri spilar þú í lúðró og hver er kennarinn þinn í tónó?
Ég spila á kornett og kennarinn minn er Martin.

Spilar þú líka á önnur hljóðfæri?
Já, á píanó.

Hvernig lög spilið þið í lúðrasveitinni?
Alls konar bara.

Hvað finnst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Eee… ég veit það ekki.

Hefurðu farið í ferðalög með lúðrasveitinni? Hvert? Var gaman?
Já, ég fór til Seltjarnarness í fyrra. Já, það var gaman.

Hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt að vera í lúðrasveitinni?
Bara góð áhrif.

 

Jón Grétar Benjamínsson tók viðtalið.

Uncategorized

Valdimar H. Lárusson

Valdimar Hannes - Stóra Lúðró

Hvar áttu heima og í hvaða bekk ertu? 
Ég bý í Stykkishólmi og er í 5. bekk.

Ertu búinn að vera lengi í lúðrasveitinni? 
Ég byrjaði í Litlu Lúðró og fór svo í Stóru Lúðró haustið 2012.

Hver stjórnaði lúðrasveitinni þá?
Hjálmar var fyrst stjórnandi og síðan Martin

Á hvaða hljóðfæri spilar þú í lúðrasveitinni og hver er kennarinn þinn í tónó?
Ég spila á trompet og Martin er að kenna mér.

Kanntu á fleiri hljóðfæri?
Ég spila líka á trommur.

Hvernig lög spilið þið í lúðrasveitinni?
Allskonar lög – flest skemmtileg.

Hvað finnst þér skemmtilegast við lúðrasveitina?
Spila á tónleikum og fara í ferðalög.

Hefurðu farið í ferðalög með lúðrasveitinni? Hvert? Var gaman?
Við fórum á landsmót Lúðrasveita á Akureyri 2012, Afmælisferðalag í nóvember 2013 og dagsferð í Borgarnes að spila á Nótunni.  Öll ferðalögin voru mjög skemmtileg.

Landsmót 2014

Landsmót SÍSL í Stykkishólmi 4.-6. apríl

Rauða sveitin að æfa í Stykkihólmskirkju
Rauða sveitin að æfa í Stykkihólmskirkju
Bláa sveitin að æfa í tónlistarskólanum
Bláa sveitin að æfa í tónlistarskólanum
Bláa sveitin að æfa í tónlistarskólanum
Bláa sveitin að æfa í tónlistarskólanum
Ísól Lilja og Anna Soffía í bláu sveitinni
Ísól Lilja og Anna Soffía í bláu sveitinni
Græna sveitin að æfa í íþróttahúsinu
Græna sveitin að æfa í íþróttahúsinu
Trommusveitin að æfa í Skipavík
Trommusveitin að æfa í Skipavík
Ballið að byrja í íþróttahúsinu
Ballið að byrja í íþróttahúsinu
DJ Símon B. Hjaltalín á ball
DJ Símon B. Hjaltalín á balli
Trommusveitin að spila á tónleika
Trommusveitin að spila á tónleikum
Rauða sveitin að spila á tónleika
Rauða sveitin að spila á tónleikum
Græna sveitin að spila á tónleika
Græna sveitin að spila á tónleikum
Uncategorized

Bjarni Lárentsínusson

Fleiri kynslóðir í lúðró

Ég á heima í Stykkishólmi og ég starfaði allan minn starfsaldur sem húsasmiður. Ég byrjaði í lúðrasveitinni 13 ára og hætti fyrir nokkrum árum síðan, það voru allt í allt 62 ár. Víkingur Jóhannsson lúðrasveitastjóri kenndi mér á tenórhorn og svo kom Arne Björhei og kenndi mér líka. Seinna fór ég að spila á saxófón og barítónhorn. Ég spila svolítið á saxófóninn ennþá. Í lúðrasveitinni spiluðum við allt mögulegt en áður fyrr voru það svona mest ættjarðarlög og marsar eftir Sousa. Við fórum í ferðalög m.a. á landsmót til Reykjavíkur, Selfoss, Akureyrar, vestur á firði og margt fleira. Félagsskapurinn í lúðrasveitinni var langskemmtilegastur og svo var líka gaman að spila mis- munandi og falleg lög. Það hefur haft góð áhrif á mig að vera í lúðrasveitinni og félagsskapurinn verið mjög góður.

Jóel Bjarki Sigurðarson, Salvör Mist Sigurðardóttir og Dagný Inga Magnúsdóttir tóku viðtalið.

 

Uncategorized

Hannes Gunnarsson

Fleiri kynslóðir í lúðró

Ég á heima í Stykkishólmi og er ellilífeyrisþegi. Ég byrjaði að læra á klarínett í september 1950 og spilaði með Lúðrasveit Stykkishólms á gamlársdag sama ár. Víkingur Jóhannsson, stjórnandi lúðrasveitarinnar, kenndi mér. Þá var enginn tónlistarskóli í Stykkishólmi. Ég var í lúðrasveitinni til 1985. Síðan byrjaði ég aftur 2006 til 2009 en hef ekkert spilað síðan. Við spiluðum mest ættjarðarlög og marsa og jafnvel dægurlög og sálmalög við hátíðleg tækifæri. Hérna heima héldum við tónleika og spiluðum úti
við öll útihátíðahöld. Við fórum til allra helstu staða á Snæfellsnesi og spiluðum ýmist úti eða inni. Einnig var farið um Vestfirði og Norðurland í sama tilgangi. En skemmtilegastar voru ferðirnar á landsmót lúðrasveitanna, sem haldin voru víða um land. Þetta voru mjög skemmtilegar ferðir, enda félagarnir í Lúðrasveit Stykkishólms ákaflega samhentir og skemmtilegir menn. Það er margt sem maður lærir á því að vera í lúðrasveit, t.d. þarf mikinn áhuga og dugnað, reyna að gera alltaf betur en síðast.

Anna Soffía Lárusdóttir tók viðtalið.