Njáll Þórðarson
Hvar áttu heima og við hvað starfar þú?
Ég bý í Reykjavík, Seláshverfi í Árbænum og hef starfað hjá Símanum sl. 7 ár
sem vörustjóri. En við fjölskyldan förum mjög mikið í nafla alheimsins, Stykkishólm.
Varstu í lúðrasveitinni?
Var í Lúðrasveit Stykkishólms að mig minnir frá 1986 til 1990, eða u.þ.b. fjögur ár. Daði Þór Einarsson, súper- snillingur var með sveitina þau ár sem ég fékk að vera með. Ég spilaði á túbu, sem er klárlega fallegasta sólóhljóðfæri sem hver einasta lúðrasveit getur státað af. Sem meira er, þá er ég svo stoltur af því að ég er skráður sem Túbuleikari á já.is. Daði Þór kenndi mér á túbu, en svo lærði ég líka á píanó í Tónó, Sigrún Sýslumannsins (sem þá var) og Jóhanna Guðmunds kenndu mér á það hljóðfæri. Einnig var ég í tónfræði hjá Lalla Pé og Hadda heitnum Sig. „Mr Tuba“ var uppáhaldslagið á þessum tíma, en svo voru auðvitað klassísk lúðrasveitaverk sem voru æfði og spiluð og svo fannst mér líka skemmtilegt að freta „Eye of the Tiger”“ í túbuna.
Eftirminnilegt við árin í Lúðró?
Allt. Lúðrasveitarstarf hefur ótrúlega marga kosti, aga, læra listina að vinna í hóp og bera virðingu fyrir öðrum. Ferðalög innan- og utanlands og svo þegar allt kemur til alls, er ótrúlega sterkt tengslanet sem verður til með því að starfa í lúðrasveit, bæði starfstengt og persónulegt. Öll lúðrasveitaferðalögsem ég fór í voru eftirminnileg og hrikalega skemmtileg. Innanlands var farið á Höfn, Mosó og Eyjar sem dæmi, en erlendis stóð uppúr ferðin 1988 til Danmerkur og Rostock, sem þá var hluti af Austur-Þýskalandi. Voru forrréttindi sem maður býr að alla ævi. Lifðum á Coke í dós og Mars sem keypt var í dollarabúðum, héldum til í borg, þar sem ferðamenn voru ekki daglegt brauð og fá að upplifa þessa mögnuðu borg áður en Berlínarmúrinn féll, sem gerðist bara rúmlega ári eftir að við vorum þar. Fyrir krakka, á mótunarárum, er það einfaldlega sannað, hvort sem það eru íþróttir eða tónlist, að þetta byggir upp sjálfstraust, maður lærir að bera virðingu fyrir öðrum og spila samhæfða músík, þar sem maður þarf að treysta á framlag annara, svo útkoman verði heildstæð ofl. ofl. Þannig að hvort sem áhuginn liggur í íþróttum eða tónlist, er allt svona starf gríðarlega mikilvægt. Ætti samt að vera skylda að vera í lúðrasveit finnst mér.
Ertu í lúðrasveit í dag?
Nei, því miður. Stundum vildi ég óska þess að hafa afsökun til að grípa í túbuna. Ég spila aðalega á píanó í dag og hef gert það í ýmsum hljómsveitum frá árinu 1989. Er ennþá að spila með hljómsveitum og tónlistarmönnum, sem er mjög skemmtilegt og meira að segja launað áhugamál. Eitthvað annað en golf og veiði… FACE!
Anna Soffía Lárusdóttir tók viðtalið.