Jón Torfi Arason
Hvar býrð þú og við hvað starfar þú?
Ég bý í Stykkishólmi. Á veturna er ég sjómaður á bát héðan úr Hólminum, en á sumrin fer ég á handfæri á mínum eigin bát.
Varstu í lúðrasveitinni?
Mig minnir að ég hafi byrjað á kornett í Lúðró þegar ég var 7 ára, það hefur þá verið ca. árið 1989-90. Á þessum tíma stjórnaði Daði Þór Einarsson sveitinni, en hann kenndi mér síðan á trompet. Ég var í lúðró þangað til ég fór suður í menntaskóla árið 1998. Síðan kom ég aftur í sveitina árið 2005 og spilaði með í um tvö ár, en þá var Martin Markvoll tekinn við prikinu. Fyrstu lögin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um lúðró eru marsarnir. T.d. Sousa marsarnir sem alltaf voru dregnir fram þegar fara átti í skrúðgöngu. Síðan man ég auðvitað eftir Nallanum, sem alltaf var leikinn 1. maí og norska þjóðsönginum sem spilaður var við jólatréð í kvenfélagsgarðinum. Þetta er auðvitað fyrir utan öll jólalögin sem alltaf þurfti að byrja að æfa í september (allavega svona í minningunni). Og svo bara allt hitt.
Eftirminnilegt við árin í Lúðró?
Skemmtilegast eða eftirminnilegast við lúðró eru öll ferðalögin og æfingabúðirnar. Farnar voru æfinga- og tónleikaferðir í Mosó, Laugargerðisskóla og eitt skiptið fórum við til Kaupmannahafnar að spila í Tívolí. Svo var auðvitað alltaf gaman að spila á tónleikum, þó stundum kæmust nú fleiri að en vildu. Það hafa allir gott af því að vera í lúðrasveit og þetta er eitthvað sem maður býr að alla ævi. Í lúðrasveit lærir maður hvernig samspil hljóðfæra virkar og svo auðvitað það sem er svo mikilvægt í allri tónlist, að hlusta. Svo er félagsskapurinn auðvitað frábær… allavega svona í efra brassinu.
Ertu í lúðrasveit í dag?
Því miður hef ég ekki tíma til að spila í lúðrasveit í dag, en það er nú samt þannig að maður hættir aldrei í lúðró. Allavega ekki í Lúðrasveit Stykkishólms. Í dag þegar ég dreg upp hljóðfæri spila ég oftast á gítar, en trompetið er aldrei langt undan. Ég á nokkuð safn af allskonar hljóðfærum sem ég spila minna á en finnst voða gott að hafa í kringum mig t.d. píanó, básúnu og kontrabassa.
Haukur Páll Kristinsson tók viðtalið.